Erlent

Ekki kynferðisofbeldi ef káfið er utanklæða

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Glæpurinn átti sér stað árið 2016, þegar stúlkan var tólf ára gömul.
Glæpurinn átti sér stað árið 2016, þegar stúlkan var tólf ára gömul. Unsplash/Parth Vyas

Að káfa á einstakling utanklæða er ekki kynferðisofbeldi, samkvæmt niðurstöðu yfirréttar í Mumbai. Hvergi er kveðið á um það í indverskum lögum að káf sé aðeins kynferðisofbeldi ef hold snertir hold en dómurinn er fordæmisgefandi.

Umrætt mál varðar 39 ára mann sem var dæmdur í þriggja ára fangelsi í undirrétti fyrir að hafa beitt tólf ára stúlku kynferðisofbeldi. Maðurinn lokkaði stúlkuna á heimili sitt undir því yfirskini að ætla að gefa henni gvava, káfaði á brjóstum hennar og reyndi að taka fjarlægja nærfatnað hennar.

Dómi undirréttar var áfrýjað og snúið en yfirdómarinn komst að þeirri niðurstöðu að gjörningur mannsins gæti ekki talist kynferðisofbeldi þar sem káfið átti sér stað utanklæða. Maðurinn var hins vegar fundinn sekur um misnotkun og dæmdur í eins árs fangelsi.

Í niðurstöðu sinni sagði dómarinn að það væri grundvallarregla refsiréttar að refsingin endurspeglaði alvarleika glæpsins.

Dómurinn hefur vakið mikla reiði á Indlandi, þar sem kynferðisofbeldi gegn stúlkum og konum er verulegt vandamál. Áætlað er að tilkynnt sé um nauðgun á sextán mínútna fresti en þess bera að geta að líkur eru á að fjöldi kynferðisglæpa sé ekki tilkynntur.

Hæstaréttarlögmaðurinn Karuna Nundy tísti að það væru dómar á borð við þennan sem gerðu það að verkum að menn sættu ekki refsingum fyrir brot gegn stúlkum. Ranjana Kumari, framkvæmdastjóri Centre for Social Research, kallaði niðurstöðuna „skammarlega“ og sagði hana ekki eiga stoð í lögum.

CNN greindi frá.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×