Sjö hafa greinst með kórónuveiruna innanlands síðastliðna viku en allir hafa verið í sóttkví. Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir telur mögulega tilefni til að slaka á samkomutakmörkunum en núverandi reglur gilda til 3. mars. Hann hefur þó enn ekki sent Svandísi Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra nýtt minnisblað vegna þessa.
„Okkur hefur gengið mjög vel og það er núna komnir allnokkrir dagar þar sem eru engin smit utan sóttkvíar. Þannig það gefur tilefni til þess að skoða það við getum hraðað eða hert á afléttingu hér innanlands,“ segir Svandís.
Svandís vill ekkert gefa upp um það hvar sé verið að hugsa um að slaka á. „Við í raun og veru erum bara að horfa á þetta í heild eins og við höfum alltaf gert og það er ánægjulegt að við skulum enn þá vera græn á korti Sóttvarnastofnunar Evrópu og það er auðvitað mjög mikilvægt fyrir okkur sjálf að sjá það að okkar aðgerðir hafa skilað árangri og þær eru náttúrulega fyrst og fremst þjóðinni sjálfri um að þakka.“
Á von á tillögum um hertar reglur á landamærum
Fjórir greindust með kórónuveiruna innanlands í gær og tengdust þeir allir. Að sögn Þórólfs var um að ræða einstakling sem greindist með Covid-19 á landamærum, fór í einangrun en tókst samt að smita sitt nánasta fólk. Svandís á von á tillögum frá Þórólfi á næstunni um hertar reglur á landamærum
„Það eru þessar hugmyndir sem að hafa komið fram sem að lúta að því að fara fram á neikvætt covid-próf á landamærum við komum og hugmyndum sem lúta að því að nýta sóttvarnarhús. Núna höfum við lagaheimildir til þess að gera það sem að voru kannski alveg öruggar áður en við samþykktum breytingar á sóttvarnalögum.“