Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglu nú síðdegis. Þar segir að ekki hafi verið tekin ákvörðun um hvort krafist verði gæsluvarðhalds yfir mönnunum. Þeir hafa allir stöðu sakbornings, samkvæmt upplýsingum frá lögreglu.
Alls hafa nú átta verið handteknir í tengslum við rannsóknina. Einn var handtekinn og úrskurðaður í gæsluvarðhald vegna málsins skömmu eftir morðið sem framið var seint á laugardagskvöld.
Þrír menn, tveir á fertugsaldri og einn á fimmtugsaldri, voru handteknir í umfangsmiklum aðgerðum lögreglu í tengslum við rannsóknina í fyrradag. Þeir voru úrskurðaðir í vikulangt gæsluvarðhald í gærkvöldi, eða til 23. febrúar.