Finnbogi Hilmarsson, formaður Þróttar, segir að samningar þessa efnis verði formlega undirritaðir í næstu viku: „Þetta eru stórkostleg tíðindi, ekki bara fyrir Þrótt heldur íbúa í Laugardal sem hafa lengi beðið eftir að það verði einhverjar úrlausnir í aðstöðumálum í hverfinu.“
Í samkomulaginu felst að Þróttur fái tvo nýja gervigrasvelli þar sem nú er Valbjarnarvöllur, austan við Laugardalsvöll. Undirbúningur að gerð þessara valla á að hefjast strax og verða þeir báðir í fullri stærð, með upphitun og lýsingu, segir Finnbogi.
Auk þess fá Þróttarar síðar meir frjálsíþróttasvæðið sem liggur norður af Valbjarnarvelli og að World Class Laugum, svokallað kastsvæði, og þar með verður til stórt svæði fyrir Þróttara með gras- og gervigrasvöllum.
Þegar þeir fá kastsvæðið gefa Þróttarar eftir stórt svæði sitt við Suðurlandsbraut, suðaustur af Laugardalshöll. Þetta ætti að skapa rými fyrir nýjan þjóðarleikvang í frjálsum íþróttum eða nýja þjóðarhöll fyrir inniíþróttir á borð við handbolta og körfubolta, eins og rætt hefur verið um. Þróttarar gefa einnig eftir völl við Álfheima.
Finnbogi segir jafnframt að í næstu viku hefjist vinna við deiliskipulag fyrir nýtt íþróttahús sem byggja á þar sem nú er bílastæði við félagsheimili Þróttar og Ármanns. Íþróttahúsið á að þjóna Þrótti, Ármanni og skólunum í hverfinu. Vinnu við deiliskipulagið á að vera lokið fyrir 1. desember.
Þá verður einnig kannað hvort að raunhæfur möguleiki sé að Laugardalshöll, sem komin er til ára sinna og er ekki lengur lögleg fyrir alþjóðlega leiki í stórum íþróttagreinum, geti orðið félags- og íþróttahús Þróttar að undangengnum breytingum.