Erna Sóley kastaði kúlunni 16,95 metra og bætti þar með gamla Íslandsmetið um 76 sentímetra sem er ótrúlegt bæting. Kastinu náði hún á Conference USA innanhússmótinu í Birmingham í Alabama fylki í Bandaríkjunum.
Erna Sóley sýndi að þetta kast var engin tilviljun því hún átti tvö köst yfir gamla metinu. Öll hin köstin voru aftur á móti ógild og það var saga að segja frá því.
„Þetta var fyrsta mótið mitt í langan tíma þannig ég var nokkuð stressuð og gerði fjögur köst ógild. Síðan náði ég aðeins að róa mig niður og þá kom lengsta kastið,“ sagði Erna Sóley í spjalli við fésbókarsíðu Frjálsíþróttasambands Íslands. Hér fyrir neðan má sjá metkastið hennar.
Big Congrats to Erna Gunnarsdottir on winning the Conference USA Indoor Championships with a PB and new National Record of 16.95m!!! #GoOwls #RFND #shotput #discus #hammerthrow #javelin #throwing #training #NCAA @RiceAthletics pic.twitter.com/vvQ8FqsOCZ
— Brek Christensen (@BrekChristensen) February 22, 2021
Hún keppir fyrir Rice University í Houston í Texas fylki og ganga æfingar vel.
„Uppbyggingartímabilið er búið að ganga mjög vel og ég er búin að styrkja mig mikið. Ég lagði mikla áherslu á lyftingar og ég held að það hafi borgað sig,“ sagði Erna og hún ætlar sér enn stærri hluti á næstunni.
„Næst á dagskrá verður vonandi Indoor Nationals 11. mars. Þar verður markmiðið að kasta 17m+,“ sagði Erna Sóley í umræddu viðtali sem birtist á samfélagsmiðlum FRÍ.