Uppfært kort var gefið út í gær og byggir tölfræðin á gögnum sem safnað er í vikunni áður. Um er að ræða þrjá litakóða sem sýna hvernig staðan er í hverju Evrópulandi fyrir sig varðandi faraldurinn.
Land eða svæði fær grænan lit ef fjórtán daga nýgengi á hverja 100 þúsund íbúa er undir 25 og hlutfall jákvæðra sýna undir 4%.
Nýgengi innanlandssmita hér á landi samkvæmt covid.is er 1,4 og nýgengi landamærasmita er 4,6. Samkvæmt tölfræði Sóttvarnastofnunarinnar sem aðskilur ekki þessi nýgengi er nýgengið hérlendis 7,96.
Faraldurinn er á hægri niðurleið í Evrópu og endurspeglar litakóðunarkortið það. Þannig er til að mynda Spánn að mestu leyti ljósrauður frekar en dökkrauður eins og síðustu viku og eitt svæði í landinu hefur meira að segja fengið appelsínugulan lit.
Þá eru fleiri svæði í Grikklandi orðin appelsínugul frá því í liðinni viku og eyjan Sikiley við Ítalíu, sem var ljósrauð í síðustu viku, er nú merkt með appelsínugulum lit.
Rauði liturinn táknar að nýgengi smita sé annað hvort 50 eða hærra og að hlutfall jákvæðra sýna sé 4% eða hærra eða þá að nýgengið sé hærra en 150. Eftir því sem hann er dekkri á kortinu er staðan alvarlegri.
Appelsínuguli liturinn þýðir annað hvort að nýgengið sé undir 50 en hlutfall jákvæðra sé yfir 4% eða þá að nýgengið sé á bilinu 25 til 150 og hlutfall jákvæðra sýna undi 4%. Ljósgrátt þýðir síðan að löndin eru ekki með í tölfræðinni.