Líkt og fréttastofa hefur greint frá komst embætti landlæknis nýverið að þeirri niðurstöðu að læknir hjá Heilbrigðisstofnun Suðurnesja hefði gert alvarleg mistök í störfum sínum. Maðurinn er meðal annars grunaður um að hafa sett konu á líknandi meðferð, án þess að forsendur væru fyrir því. Fjölskylda konunnar sendi frá sér yfirlýsingu í vikunni þar sem segir að konan, sem var 73 ára, hafi ekki verið upplýst um að um væri að ræða lífslokameðferð.
Í yfirlýsingunni segir að þegar hún hafi reynt að hafna meðferð hafi verið litið á það sem hegðunarvandamál. Sýkingar hafi ekki verið meðhöndlaðar og þegar fór að draga svo af henni að hún hætti að bera sig eftir næringu og vökva hafi ekkert verið gert í því.
Í skriflegu svari landlæknis segir að öryggismenning hjá stofnuninni verði skoðuð sérstaklega. Þá verði skoðuð ábyrgð læknanema sem starfi á grundvelli tímabundins læknaleyfis og samvinna heilsugæslu, sjúkrahúss og heimaþjónustu.
Þá var óskað eftir upplýsingum um hvort verið sé að rannsaka dauðsföll yfir lengra tímabil og segir að eðli alvarlegra atvika í heilbrigðisþjónustu sé oftast um að ræða ýmsa samverkandi þætti, bæði mannlega og kerfislega. Því sé mikilvægt að skoða tilurð atvika í víðu samhengi svo hægt sé að koma í veg fyrir að sambærileg atvik endurtaki sig.
Fréttastofa hefur gert ítrekaðar tilraunir til að ná í framkvæmdastjórn HSS - án árangurs. Upplýsingafulltrúi stofnunarinnar segir að stjórnendur muni ekki veita viðtöl vegna málsins.