Innlent

Veðrið með rólegra móti miðað við árstíma

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Það verður tiltölulega rólegt veður þessa vikuna samkvæmt hugleiðingum veðurfræðings.
Það verður tiltölulega rólegt veður þessa vikuna samkvæmt hugleiðingum veðurfræðings. Vísir/Vilhelm

Í dag er útlit fyrir suðaustan golu eða kalda sunnan heiða með dálítilli rigningu eða slyddu. Þá bætir í úrkomu eftir hádegi og er spáð eitt til sex stiga hita.

Svo er greint frá í hugleiðingum veðurfræðings á vef Veðurstofu Íslands. Á Norður- og Austurlandi er spáð hægviðri og að mestu leyti þurru veðri framan af degi.

Seinnipartinn má síðan búast við að það þykkni upp með slyddu eða snjókomu og í kvöld bætir svo einnig í vind. Hiti verður um frostmark.

„Á morgun er spáð suðaustan strekkingi með suður- og vesturströndinni og rigningu eða slyddu af og til, en hægari og þurrt að kalla í uppsveitum. Á Norður- og Austurlandi léttir til og verður víða vægt frost þar.

Það er síðan skemmst frá því að segja að á fimmtudag og föstudag er spáð aðgerðalitlu veðri, fremur hægur vindur og lítil eða engin úrkoma á landinu.

Á Íslandi telst mars vera fjórði og síðasti vetrarmánuðurinn í veðurlegu tilliti og getur hæglega verið illviðrasamt. Það má því segja að veðrið nú þessa vikuna sé með rólegra móti miðað við árstíma,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings.

Veðurhorfur á landinu:

Suðaustan 3-10 m/s og dálítil rigning eða slydda sunnan- og vestanlands, bætir í úrkomu eftir hádegi. Hægviðri og þurrt á Norður- og Austurlandi, en þykknar upp með slyddu eða snjókomu seinnipartinn og gengur í norðaustan 8-15 þar í kvöld. Hiti 1 til 6 stig, en kringum frostmark fyrir norðan og austan.

Suðaustan 8-13 m/s á morgun á Suður- og Vesturlandi og lítilsháttar rigning eða slydda. Hiti 0 til 5 stig. Hægari vindur á Norður- og Austurlandi, bjartviðri og frost 0 til 5 stig.

Á miðvikudag:

Suðaustan 8-13 m/s á Suður- og Vesturlandi og dálítil rigning eða slydda, einkum við ströndina. Hiti 0 til 5 stig. Hægari vindur á Norður- og Austurlandi, bjartviðri og frost 0 til 5 stig.

Á fimmtudag:

Suðlæg átt 3-10. Skýjað á landinu og lítilsháttar væta við suður- og vesturströndina. Hiti 0 til 6 stig, mildast við sjóinn.

Á föstudag:

Fremur hæg sunnanátt og víða bjart veður, en skýjað og dálítil rigning um tíma suðvestantil á landinu. Hiti breytist lítið.

Á laugardag:

Austlæg átt, rigning með köflum og hiti 1 til 5 stig, snjókoma eða slydda um tíma á norðanverðu landinu og vægt frost.

Á sunnudag:

Hæg suðlæg átt og dálítil væta, en þurrt að kalla norðanlands. Hiti 1 til 6 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×