Greint er frá málinu í spænska dagblaðinu La Provincia sem gefið er út á Kanaríeyjum en mbl.is greindi fyrst frá íslenskra miðla.
Mennirnir eru grunaðir um að hafa ráðist á konuna síðastliðinn föstudag í hverfinu Agua la Perra í Púertó Ríkó á eyjunni Gran Canaria. Púertó Ríkó er ferðamannasvæði í bænum Mogán á Gran Canaria.
Konan, sem hefur verið búsett á Kanaríeyjum ásamt fjölskyldu sinni í mörg ár að því er segir í frétt La Provincia, lagði fram kæru á sunnudagskvöld.
Í fréttinni segir að hún hafi leitað til læknis eftir árásina og lagt fram áverkavottorð sem renni stoðum undir frásögn hennar af því sem gerðist á föstudagskvöld. Lögreglan hóf strax rannsókn eftir að konan lagði fram kæru og handtók mennina á mánudag.
Að því er segir í frétt La Provincia eru hinir grunuðu innflytjendur frá Norður-Afríku sem eiga að hafa komið til Kanaríeyja með bát.
Í kæru konunnar mun hafa komið fram að hún hafi gefið sig á tal við mennina á föstudagskvöld til að spyrja þá út í þeirra líf og aðstæður en þeir þá ráðist á hana.