Innlent

Veturinn minnir á sig

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Það mun snjóa eitthvað á Akureyri á morgun ef marka má veðurspá Veðurstofu Íslands.
Það mun snjóa eitthvað á Akureyri á morgun ef marka má veðurspá Veðurstofu Íslands. Vísir/Tryggvi

Hyggilegt er fyrir ferðalanga að hafa veður morgundagsins í huga þegar ferðalög eru skipulögð þar sem veturinn minnir nú á sig eftir hagstæða tíð undanfarið.

Þetta kemur í fram í hugleiðingum veðurfræðings á vef Veðurstofu Íslands en þar segir að í dag sé útlit fyrir hægt vaxandi norðaustanátt og strekkingsvind nokkuð víða seinnipartinn.

Með fylgi úrkomusvæði og er spáð rigningu eða snjókomu á austurhelmingi landsins en þurrt að kalla vestantil. Hiti verður víða nálægt frostmarki en allt að fim stigum sunnanlands.

Það bætir síðan í vind í kvöld og í nótt og á morgun er víða gert ráð fyrir allhvassri norðanátt en hvassviðri eða stormi um landið norðvestanvert síðdegis.

„Á morgun verður væntanlega úrkomulítið sunnanlands, annars víða slydda eða snjókoma, en rigning austast á landinu. Hiti kringum frostmark, en frostlaust með suður- og austurströndinnni.

Á morgun þarf því að gera ráð fyrir snörpum vindstrengjum við fjöll í flestum landshlutum, einkum um landið vestanvert. Einnig má búast við hríðarveðri nokkuð víða, sérílagi á fjallvegum, en úrkomulítið sunnanlands.

Það væri hyggilegt fyrir ferðalanga að hafa veður morgundagsins í huga þegar ferðalög eru skipulögð. Eftir hagstæða tíð undanfarið, minnir veturinn á sig. Á Íslandi er mars flokkaður sem vetrarmánuður, enda sýna veðurmælingar að hann sker sig ekki frá hinum vetrarmánuðunum þremur (desember, janúar og febrúar),“ segir í hugleiðingum veðurfræðings.

Veðurhorfur á landinu:

Gengur í norðaustan 8-15 m/s seinnipartinn í dag. Rigning eða snjókoma á austurhelmingi landsins, en þurrt að kalla vestanlands. Hiti víða nálægt frostmarki, en að 5 stigum sunnanlands.

Bætir í vind í kvöld og nótt. Norðan 10-18 á morgun, en 15-23 síðdegis um landið norðvestanvert. Úrkomulítið sunnanlands, annars víða slydda eða snjókoma, en rigning austast á landinu. Hiti kringum frostmark, en frostlaust með suður- og austurströndinni.

Á miðvikudag:

Norðan 10-18 m/s, en 15-23 síðdegis um landið norðvestanvert. Úrkomulítið sunnanlands, annars víða slydda eða snjókoma, en rigning austast á landinu. Hiti kringum frostmark, en frostlaust með suður- og austurströndinnni.

Á fimmtudag:

Norðaustan 5-13, en 15-23 norðvestantil á landinu. Rigning eða snjókoma norðan- og austanlands, en þurrt að mestu sunnantil. Hiti 0 til 5 stig, en vægt frost á Vestfjörðum.

Á föstudag:

Norðaustan og norðan 8-15. Snjókoma norðantil á landinu, rigning austast, en þurrt sunnan heiða. Hiti breytist lítið.

Á laugardag og sunnudag:

Norðlæg átt og él norðanlands með vægu frosti, en yfirleitt þurrt sunnantil á landinu og frostlaust að deginum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×