Er þetta í fyrsta sinn síðan í maí á síðasta ári sem það dregur úr atvinnuleysi á milli mánaða að því er fram kemur í skýrslu sem birt er á vef Vinnumálastofnunar.
Í október í fyrra var atvinnuleysi 9,9 prósent, í nóvember var það 10,6 prósent og 10,7 prósent í desember.
Vinnumálastofnun spáir því að áfram dragi úr almennu atvinnuleysi nú í mars og það verði á bilinu 10,9 til 11,3 prósent.
„Alls voru 21.352einstaklingar atvinnulausir í almenna bótakerfinu í lok febrúarmánaðar og 4.331í minnkaða starfshlutfallinu, eða samtals 25.683 manns. Atvinnuleysi í minnkaða starfshlutfallinu í febrúar var 1,1% og samanlagt atvinnuleysi því 12,5% í febrúar,“ segir í skýrslu Vinnumálastofnunar.
Þá höfðu 4.719 almennir atvinnuleitendur verið án vinnu í meira en tólf mánuði í lok febrúar en þeir voru 4.508 í lok janúar. Í febrúarlok 2020 voru þeir hins vegar 1.893 og hefur þeim því fjölgað um 2.826 milli ára.
„Atvinnulausum fækkaði í flestum atvinnugreinum í febrúar 2021 frá mánuðinum á undan, hlutfallslega mest í sjávarútvegi og í atvinnugreinum tengdum veitingaþjónustu svo og ferðaþjónustu var næstmest fækkun milli mánaða sem tengist áhrifum af nokkurri afléttingu samkomubanns í febrúar.
Hinsvegar jókst atvinnuleysi lítilsháttar í verslun og í upplýsingatækni og útgáfu,“ segir í skýrslu Vinnumálastofnunar sem lesa má í heild sinni hér.