Á ráðstefnunni hittust sveitarstjórnarfulltrúar frá öllu Rússlandi, að sögn Andrei Pivovarov, skipuleggjanda hennar og framkvæmdastjóra Opins Rússlands, samtaka rússneskra andófsmanna í Bretlandi.
Lögreglumenn ruddust inn skömmu eftir að ráðstefnan hófst í dag. Handtóku þeir viðstadda og stungu inn í lögreglubíla sem biðu fyrir utan, að sögn Reuters-fréttastofunnar.
Samtökin OVD-Info sem fylgjast með handtökum á aðgerðarsinnum og pólitískum mótmælendum hafa birt lista yfir fleiri en 150 manns sem þau segja að hafa verið handteknir í dag.
Opið Rússland er á meðal fleiri en þrjátíu samtaka sem stjórnvöld í Kreml skilgreina sem óæskileg og bönnuðu með lögum sem voru samþykkt árið 2015.
Stjórnvöld hófu rassíu gegn stjórnarandstæðingum og andófsfólki eftir að þau handtóku Alexei Navalní, einn helsta stjórnarandstöðunnar, þegar hann sneri heim til Rússlands í janúar. Hann hafði dvalið í Þýskalandi um nokkurra mánaða skeið eftir að eitrað var fyrir honum í heimalandinu. Hann sakar Vladímír Pútín forseta um að hafa skipað fyrir um tilræðið. Því hafna rússnesk stjórnvöld.