Innlent

Norðlendingar megi reikna með 10-15 stiga hita í vikunni

Kjartan Kjartansson skrifar
Milt loft úr suðri ætti að ylja norðlendingum síðar í vikunni. Myndin er af vetrarríki á Akureyri.
Milt loft úr suðri ætti að ylja norðlendingum síðar í vikunni. Myndin er af vetrarríki á Akureyri. Vísir/Tryggvi Páll

Miklum hitabreytingum er spáð með mildu lofti úr suðri sem kemur yfir landið í vikunni. Einar Sveinbjörnsson, veðurfræðingur hjá Bliku, segir að norðlendingar meigi reikna með allt að tíu til fimmtán stiga hita á fimmtudag.

Bjart og kalt veður hefur verið á suðvestanverðu landinu í dag og er því spáð áfram fram á kvöld. Veðurstofan segir að skil nálgist landið úr suðvestri á morgun. Eftir hádegi er spáð allhvassri eða hvassri suðaustanátt, rigningu og slyddu um landið sunnan- og vestanvert.

Á norðaustanverðu landinu er spáð hægari vindi og úrkomulitlu þar til skilin ganga yfir undir kvöld. Hlýna á smáma saman og síðdegis á morgun á hiti að vera á bilinu núll til sjö gráður. Seint annað kvöld dregur úr vindi og úrkomu sunnan- og vestantil.

Einar skrifar í færslu á Facebook-síðu sinni í morgun að hlýjast verði á miðvikudag og sérstaklega á fimmtudag. Í sunnanþey geti hitinn náð allt að fimmtán gráðum á Norðurlandi. Það er þó skammgóður vermir.

„Mildasta loftið staldrar ekki lengi við og kólnar aftur undir helgi, en þó ekki tiltakanlega. En snjór leysir fyrir norðan og í einhverjum mæli einnig til fjalla eins og gefur að skilja,“ skrifar hann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×