Þetta sagði Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra í samtali við fréttamenn eftir ríkisstjórnarfundinn í morgun. Með breytingunni, sem tekur gildi í þessari viku að sögn Áslaugar, geta þeir sem eru bólusettir utan Schengen og eru með gild vottorð þess efnis komið til landsins.
Á sama hátt verða vottorð um fyrri Covid-sýkingu tekin gild. Vottorðin þurfa að uppfylla skilyrði sóttvarnalæknis eins og verið hefur hingað til.
Þau sem framvísa slíkum vottorðum þurfa hvorki að fara í sýnatöku eða sóttkví né framvísa vottorði um neikvætt PCR-próf á landamærum.
Áslaug sagði að fordæmi væri fyrir breyttum reglum varðandi bólusetningar hjá löndum innan Schengen. Hún nefndi Kýpur í því samhengi en sagði að Ísland væri þó í forystu með jafnafgerandi ákvörðun og tekin var á ríkisstjórnarfundinum í morgun.
Horfa til Bretlands og Bandaríkjanna
Innt eftir því hvort hún væri með þessu að láta undan þrýstingi frá ferðaþjónustunni sagði Áslaug að hún og Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra væru sammála um að mikilvægt væri að taka sömu vottorð gild, hvort sem þau væru frá löndum innan eða utan Schengen.
Þarna væri einkum verið að horfa til Bretlands og Bandaríkjanna, sem Áslaug sagði okkar „stærstu markaði“ og að mikilvægt væri að fólk frá þessum löndum hefði kost á að koma til Íslands.
Núverandi reglur kveða á um að hvorki sé tekið við bólusetningar- né mótefnisvottorðum á landamærum Íslands ef komufarþegi kemur frá ríki utan Schengen-samstarfsins. Reglurnar voru settar að tilmælum ráðherraráðs Evrópusambandsins.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sagði í gær að hann teldi það skjóta skökku við að taka aðeins gild bólusetningar- og mótefnavottorð frá Schengen-ríkjum á landamærum.
Tilkynning heilbrigðisráðuneytisins um nýja fyrirkomulagið.
Fréttin hefur verið uppfærð.