Innlent

Einn lagður inn með Covid í nótt

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Talsvert langt er síðan sjúklingur var síðast lagður inn með Covid á Landspítala, að sögn yfirlæknis.
Talsvert langt er síðan sjúklingur var síðast lagður inn með Covid á Landspítala, að sögn yfirlæknis. Vísir/Vilhelm

Einn var lagður inn á Landspítala vegna Covid-sýkingar í nótt. Innlögnin er sú fyrsta vegna Covid í nokkrar vikur, að sögn yfirlæknis. Enginn lá inni á spítalanum með Covid í gær.

„Eins og kom fram í gær þá vorum við ekki með neinn sjúkling inni í gær og það var í fyrsta sinn í langan tíma,“ segir Már Kristjánsson yfirlæknir smitsjúkdómadeildar Landspítala í samtali við Vísi.

„En það er held ég ríflega mánuður síðan við lögðum einhvern inn.“

Már segir að sjúklingurinn sé á miðjum aldri og að smitið tengist landamærum. Þá gerir hann ráð fyrir að sjúklingurinn sé með breska afbrigði veirunnar.

„Ég geri bara ráð fyrir því miðað við þær upplýsingar sem hafa komið fram á [upplýsinga]fundunum. En það í sjálfu sér hefur enga þýðingu fyrir okkur, þetta er bara þessi veira og við erum bara að glíma við hana. Þetta eru ekki öðruvísi veikindi,“ segir Már.

Enginn greindist með kórónuveiruna innanlands í gær. Fá innanlandssmit hafa greinst undanfarna daga en talsvert hefur verið um smitaða á landamærum.


Tengdar fréttir

Enginn greindist með Covid innanlands

Enginn greindist með kórónuveiruna innanlands í gær. Fjórir greindust á landamærum, þar af tveir með virkt smit en beðið er eftir niðurstöðu úr mótefnamælingu hjá hinum tveimur. Þetta kemur fram í uppfærðum tölum á Covid.is.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×