Greint var frá því í dag að einn hefði greinst með kórónuveiruna utan sóttkvíar í gær. Sóttvarnalæknir sagði á upplýsingafundi almannavarna fyrir hádegi að ekki væri búið að rekja smitið og að raðgreining lægi heldur ekki fyrir. Smitið væri vísbending um að veiran væri ekki horfin úr samfélaginu.
Sigurlaug Sverrisdóttir eigandi ION hótela segir í samtali við Vísi að starfsmaðurinn, sem greindist með veiruna seint í gærkvöldi, hafi ekki verið við vinnu síðan 7. mars. Engir gestir séu því taldir í smithættu. Strax hafi verið ráðist í viðeigandi ráðstafanir; hótelið sótthreinsað og byrjað að rekja hverja starfsmaðurinn hafi verið í samskiptum við.
Þá er búið að manna allar vaktir en milli þrjátíu og fjörutíu starfsmenn hótelsins og veitingastaðanna Silfru og Sumac, sem heyra undir sama fyrirtæki, eru í sóttkví eftir starfsmannagleði síðasta sunnudag, sem umræddur starfsmaður sótti. Sóttvarnareglur hafi þar verið hafðar í heiðri.

Sigurlaug segir að hingað til hafi sem betur fer engir aðrir starfsmenn fundið fyrir einkennum. Þá sé starfsmaðurinn jafnframt einkennalítill. Hann hafi ekki hugmynd um hvernig hann smitaðist; enginn í nærumhverfi hans hafi til að mynda verið að koma frá útlöndum.
Þá segir Sigurlaug að starfsemi hótelsins og Sumac haldist áfram óbreytt og opið verði um helgina.
Eftirfarandi tilkynning barst frá ION Hóteli á fimmta tímanum í dag:
Einn starfsmaður ION Hótela greindist með kórónuveirusmit í gær utan sóttkvíar
Einn starfsmaður ION Hótela greindist með kórónuveirusmit í gær en hann var utan sóttkvíar. Starfsmaðurinn hefur ekki verið á vakt á hótelinu frá 7. mars síðastliðnum eða 10 dögum frá því að smitið kom upp. Engir gestir hótelsins eiga því að vera í smithættu.
Starfsmaðurinn sem er einkennalítill ákvað að fyrra bragði að fara í covid próf í gær þar sem hann átti að mæta á vakt næstkomandi föstudag. Mikið hefur verið brýnt fyrir starfsfólki að halda sig heima ef þau finna fyrir einkennum.
Síðastliðinn sunnudag hitti starfsmaðurinn, samstarfsfólk sitt á vorgleði starfsmanna sem fram fór á hótelinu á Nesjavöllum, þá var starfsmaðurinn einkennalaus. Allir starfsmenn sem sóttu vorgleðina eru nú í sóttkví. Enn sem komið er hefur enginn þeirra fundið fyrir einkennum. Starfsfólk hótelsins vinnur náið með sóttvarnaryfirvöldum að málinu. Smit starfsmannsins kom sem fyrr segir fram í gær en smitrakning stendur yfir og er búist við raðgreiningu í kvöld, samkvæmt sóttvarnarlækni.
Eftir að smitið kom upp hefur öllu eftirliti og leiðbeiningum um sóttvarnir verið fylgt eftir til að tryggja öryggi og velferð gesta og starfsfólks. Búið er að manna allar vaktir og er starfsemi ION Hótela, Sumac og ÓX því óbreytt og verður opin gestum um helgina.