Þetta staðfestir Már Kristjánsson, yfirlæknir smitsjúkdómadeildar Landspítala, í samtali við Vísi en RÚV greindi fyrst frá. Hann segir að starfsmaðurinn vinni á rannsóknarsviði spítalans og enginn sjúklingur hafi verið útsettur fyrir smiti. Að sögn Más hafa á bilinu sjö til níu starfsmenn verið sendir í sóttkví.
Már sat fund farsóttarnefndar Landspítala í hádeginu þar sem meðal annars var rætt að færa starfsemi spítalans á hærra viðbúnaðarstig í ljósi stöðunnar, af óvissustigi yfir á hættustig.
„Miðað við gögnin sem við höfum á þessari stundu þá fannst okkur ekki ástæða til þess en það kann að breytast ef verkefnastaðan breytist á spítalanum.“
Staðan geti ávallt breyst hratt
Þrír sjúklingar eru nú með virkt smit inni á Landspítala en ekki hefur þurft að leggja inn neinn af þeim tíu skipverjum sem hafa greinst um borð í súrálsskipinu sem liggur við höfn á Reyðarfirði. Nítján voru um borð í skipinu sem kom frá Brasilíu og sagði sóttvarnalæknir á upplýsingafundi í dag líkur á að allir skipverjar séu með kórónuveiruna.
Már veltir því upp að staðan á spítalanum gæti breyst ef einhverjir þeirra þarfnist skyndilega sjúkrahúsvistar.
„Okkar hlutverk er að velta upp möguleikum og vera þá í stakk búinn ef við þurfum.“ Viðbúnaðarstig spítalans verði því endurmetið reglulega næstu daga.
Fimm einstaklingar greindust innanlands með Covid-19 í gær en alls hafa sjö greinst síðustu þrjá sólarhringa. Þrír þeirra sem greindust í gær voru utan sóttkvíar, en aðrir sem greindust um helgina voru í sóttkví.
Alls greindust 26 kórónuveirusmit frá föstudegi til sunnudags, þar af sjö innanlands og nítján smit við landamærin.
Fréttin hefur verið uppfærð.