Leikskólar eru eina skólastigið sem helst opið eftir að gripið var til hertra aðgerða vegna fjölgunar kórónuveirusmita. Leikskólar á höfuðborgarsvæðinu voru þó lokaðir til hádegis í dag, þar sem stjórnendur undirbjuggu breytt skipulag.
Fram hefur komið að hljóðið sé þungt í leikskólakennurunum. Formaður félags leikskólakennara segir stjórnvöld taka óþarfa áhættu með því að halda leikskólum opnum fram að páskafríi. Undir þetta tekur Félag stjórnenda leikskóla sem harmar þá ákvörðun að setja ekki takmarkanir á starfsemi leikskóla.
Samráðsfulltrúi leikskólastjóra, sem einnig er leikskólastjóri á Sólborg, segir leikskólastjóra hafa óskað sérstaklega eftir því á fundi með skóla- og frístundasviði Reykjavíkurborgar í gærkvöldi að það yrði starfsdagur í dag.
„Ég ætla ekkert að neita því að það voru mikil vonbrigði þegar það var tilkynnt að við þyrfum að opna klukkan tólf í dag,“ segir Guðrún Jóna Thorarensen leikskólastjóri á leikskólanum Sólborg.
Það þurfi tíma til að undirbúa húsnæðið í takt við nýjar reglur. Þá eigi starfsmenn á leikskólum börn í grunnskólum eða eru með undirliggjandi sjúkdóma.
„Það var ekkert þægilegt að koma í vinnuna fyrir starfsfólkið og heyra að það væri komið upp smit í hverfisskólanum,“ segir Guðrún og bætir við að börn á leikskólanum eigi mörg hver eldri systkini. Þá segir hún að mikilvægi leikskólastigsins fyrir framlínustarfsfólk sé óumdeilt, en hægt hefði verið að halda leikskólum opnum með lágmarksstarfsemi fyrir vel skilgreinda forgangshópa.
Þórólfur Guðnason sagði á upplýsingafundi dagsins að engin sóttvarnarleg rök séu fyrir því að loka leikskólum. Breska afbrigðið sé meira smitandi og valdi meiri veikindum hjá öllum aldurshópum, nema hjá yngstu börnunum.
„Þá segir fólk á móti: já, en þau geta smitað okkur. Auðvitað vitum við að börn á leikskólaaldri eru ekki að fara virða fjarlægðarmörk,“ segir Guðrún.