Sóttvarnalæknir greindi frá því í dag að einstaklingur sem greindist utan sóttkvíar tengist hópferðum sem farnar hafi verið að gosstöðvunum og lýsti yfir áhyggjum af smithættu á svæðinu.
„Mér skilst að það sé svolítið vandamál við gosstöðvarnar að þar séu ferðamenn sem eiga að vera í sóttkví og við verðum að finna einhverja leið til að taka á því. Það er að segja að fólk sé að koma hingað með bókað far aftur heim þremur dögum eftir að það kemur og á samt að fara í fimm daga sóttkví. Það hljómar heldur illa,“ segir Kári í samtali við fréttastofu.
Ekki hægt að fylgjast með öllum
Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, sagði við Fréttablaðið í gær að embættið fylgdist ekki sérstaklega með því hvort fólk sem sæki gosstöðvarnar sé að brjóta sóttkví.
Ekki væri hægt að ætlast til þess að lögreglumenn sem standi vaktina á Suðurstrandarvegi, þaðan sem flestir hefja gönguna að gosstöðvunum, geti spurt alla þá sem væru á ferðinni hvort þeir eigi að vera í sóttkví. Þá sagðist hann ekki vita til þess að vandamál þessu tengt hafi komið upp við gosstöðvarnar.

Bað fólk um að fresta ferðum sínum
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir biðlaði til fólks að fara mjög varlega í hópferðum að gosstöðvunum og helst að bíða með að gera sér leið þangað á næstunni. Þúsundir manna hafa farið á svæðið síðustu daga.
„Þegar maður sér myndir frá gosstöðvunum og af þeim gríðarlega fjölda sem er þar að safnast saman af Íslendingum og útlendingum og fólki sem er að ganga í þéttum hópum, þá er ástæða til að hafa áhyggjur af því að það geti komið upp einhvers konar smit og smithætta við þær aðstæður,“ sagði sóttvarnalæknir fyrr í dag.
Þórólfur vildi ekki veita nánari upplýsingar um það með hvaða hætti einstaklingurinn tengist ferðum í Geldingadali en eitthvað hefur verið um skipulagðar ferðir á svæðið undanfarna daga.

Minni á upphaf þriðju bylgjunnar
Kári segir að stjórnvöld hafi almennt gripið myndarlega í taumanna til að bregðast við hraðri útbreiðslu kórónuveirunnar undanfarna daga og vonar að það takist að kveða þetta niður í kútinn áður en þetta verður of stórt.
„Ég vona að við náum utan um þetta en ég er svolítið smeykur því mér finnst þetta líta töluvert út eins og byrjunin á þriðju bylgjunni. Í þetta skiptið gripum við þó í taumanna miklu miklu fyrr og ég vona að það skili sér.“