Pashinyan mun þó áfram gegna hlutverki starfandi forsætisráðherra fram að þingkosningum sem fyrirhugaðar eru í júní. Forsætisráðherrann greindi frá þessu í myndbandi sem hann birti á Facebook í gær.
„Ég mun segja af mér í apríl. Ég mun segja af mér, ekki til að segja af mér, heldur til að tryggja að snemmbúnar kosningar geti farið fram,“ sagði Pashinyan þar sem hann ávarpaði stuðningsmenn sína í norðvesturhluta landsins. „Ég mun áfram þjóna sem starfandi forsætisráðherra.“
Pashinyan, sem hefur gegnt embætti forsætisráðherra Armeníu í tæp þrjú ár, boðaði til kosninga fyrr í þessum mánuði. Samkvæmt armenskum lögum geta snemmbúnar kosningar einungis farið fram eftir að forsætisráðherra hefur sagt af sér og meirihluta þingsins mistekist í tvígang að samþykkja nýjan.
Pashinyan hefur sætt miklum þrýstingi eftir friðarsamkomulagið við Asera sem gert var fyrir milligöngu Rússa í kjölfar átakanna um héraðið Nagorno-Karabakh síðasta haust.
Stjórnarandstaðan í Armeníu hefur lengi krafist afsagnar forsætisráðherrans vegna friðarsamkomulags frá í nóvember sem stór hluti armensku þjóðarinnar leit á sem fullkomna uppgjöf og ósigur. Talið er að þúsundir hafi fallið í átökunum, en samkvæmt friðarsamkomulaginu létu Armenar stórt landsvæði af hendi.
Þingkosningar áttu upphaflega að fara næst fram í landinu árið 2023.