Vísir greindi frá því í gærkvöldi að til slagsmála hefði komið á Sushi Social í gærkvöldi en um var að ræða tvo menn sem voru saman úti að borða. Þeir létu sig hverfa áður en lögregla mætti á vettvang.
Í dagbók lögreglu er fjallað um tvö tilvik.
Annað var tilkynnt kl. 21.18 en þar sem málið er í rannsókn eru nánari upplýsingar ekki veittar.
Þá virðist annað slagsmálaatvik hafa verið tilkynnt seinna en þar var óskað eftir aðstoð lögreglu á veitingastað þar sem æstur maður var að stofna til slagsmála. „Töluvert að gera hjá lögreglu á svæði 1 og því bið eftir aðstoð. Maðurinn farinn þegar lögregla kom á vettvang.“
Lögreglu barst einnig útkall vegna líkamsárásar á kaffihúsi í Breiðholti en þar var maður sleginn hnefahöggi. Segir að meiðsli hafi verið minniháttar en lögregla sé með upplýsingar um geranda.
Einnig var tilkynnt um líkamsárás í sama hverfi, sem rannsökuð er sem heimilisofbeldi.