Ingenuity er lítil þyrilvængja sem ferðaðist á kviði könnunarjeppans Perseverance sem lenti á Mars í febrúar. Eini tilgangur hennar er að kanna hvort að hægt sé að fljúga farartæki í næfurþunnum lofthjúpi rauðu reikistjörnunnar.
Þegar verkfræðingar bandarísku geimvísindastofnunarinnar NASA prófuðu þyril Ingeunity á fullum snúningi á föstudag kom upp villa þegar vængjan átti að fara úr undirbúningi fyrir flug í flugham. Tilraunin var því stöðvuð fyrr en ætlað var.
Verkfræðingar Ingenuity á jörðu fara nú yfir gögn frá geimfarinu til að greina vandamálið. Nú er stefnt að því að fara í fyrstu flugferð farartækis á öðrum hnetti í fyrsta lagi miðvikudaginn 14. apríl, að því er segir í tilkynningu á vef NASA.
