Í gærmorgun bárust þær fréttir að Tottenham Hotspur hefði látið José Mourinho taka poka sinn. Í kjölfarið var tilkynnt að hinn ungi Ryan Mason myndi stýra félaginu í úrslitum deildarbikarsins sem fram fer nú um helgina.
Tottenham staðfesti svo í morgun að Mason myndi stýra félaginu út tímabilið. Hann gæti vart byrjað á erfiðari leik en hann þarf að teikna upp leikplan sem dugar til sigurs gegn sterku liði Manchester City.
Following the departure of Jose Mourinho, we can now confirm that Ryan Mason will take charge as Interim Head Coach for the remainder of the season.#THFC #COYS
— Tottenham Hotspur (@SpursOfficial) April 20, 2021
Mason er eins og áður segir aðeins 29 ára gamall. Hann lék á sínum tíma 53 leiki fyrir Tottenham sem og einn A-landsleik en þurfti að leggja skóna á hilluna eftir að höfuðkúpu-brotna illa í janúar 2017. Mason er með fjórtán málmplötur í höfðinu. Þeim er haldið saman með 28 skrúfum og 45 heftum.
Rúmu ári eftir brotið lagði Mason skóna endanlega á hilluna. Hann fékk þjálfarastarf hjá Tottenham skömmu síðar og var mættur þangað í apríl 2018. Í júlí 2019 var Mason ráðinn þjálfari U-19 ára liðs félagsins og á síðasta ári tók hann við starfi yfirmanns yngri flokka. Í því felst að sjá um þróun og uppgang leikmanna í U-17 ára liðinu og upp í U-23 ára liðinu.
Nú hefur hann tekið annað skref á annars stuttum þjálfaraferli og verður fróðlegt að sjá hvernig honum gengur með Tottenam þessar síðustu vikur tímabilsins.
Tottenham mætir Manchester City í úrslitum enska deildarbikarsins á sunnudaginn kemur. Leikurinn verður sýndur beint á Stöð 2 Sport.

Carabao Cup er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Carabao Cup er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.