NRK segir að norska lögreglan rannsaki nú hvað hafi leitt manninn, sem er á fertugsaldri, til að skjóta konunasem var á sextugsaldri. Lögregla sé meðvituð um tengsl konunnar og banamanns hennar, en þau tengdust ekki fjölskylduböndum.
„Það er ekkert sem bendir til að þetta hafi verið tilviljun,“ segir Grete Lien Metlid hjá lögreglunni.
Lögreglu barst tilkynning um málið skömmu fyrir klukkan 8:30 að staðartíma, en konan var úrskurðuð látin þegar sjúkralið bar að garði. Árásin átti sér stað á Tostrups gate í Frogner.
Einungis þremur mínútum eftir að tilkynning barst lögreglu var maður handtekinn í bíl á E18-hraðbrautinni, um sjö kílómetrum frá vettvangi árásarinnar, en hann var á leið út úr bænum. Ábendingar höfðu þá borist um að maður hafi yfirgefið vettvanginn í bíl á miklum hraða. Skotvopn fannst í bíl mannsins sem talið er vera morðvopnið.
Norskir fjölmiðlar greina frá því að í umræddum dómsmálum hafi maðurinn verið dæmdur til að greiða konunni 11,8 milljónir norskra króna, um 176 milljónir íslenskra, í bætur í tengslum við framkvæmdir í tveimur fasteignum sem voru í eigu hinnar látnu. Þá var maðurinn sömuleiðis dæmdur til að greiða konunni 900 þúsund norskra króna, um 13,5 milljónir íslenskra króna, vegna lögmannskostnaðar konunnar í málinu.
Konan hafði selt dýra íbúð í Osló langt undir ásettu verði, eftir að maðurinn og félag hans höfðu staðið þar að framkvæmdum og við þær þverbrotið byggingareglugerðir. Konan leitaði til dómstóla vegna málsins og var maðurinn dæmdur til greiðslu skaðabóta.
Deilur þeirra höfðu staðið um margra ára skeið, en síðar í vikunni stóð til að fara fram á gjaldþrotaskipti á félagi mannsins.