Viðskipti innlent

Flugfélögin sem boða komu sína í sumar

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Þessi flugfélög stefna á áætlunarflug til landsins í sumar og von á fleirum.
Þessi flugfélög stefna á áætlunarflug til landsins í sumar og von á fleirum. Ragnar

Von er á allt að tuttugu flugfélögum með áætlunarflug um Keflavíkurflugvöll í sumar. Formaður Samtaka ferðaþjónustunnar segir að fyrsta júlí ætti að vera orðið nokkuð auðvelt að taka á móti ferðamönnum á Íslandi.

Óvenjumargar flugvélar eru væntanlegar til Íslands um helgina, sex á laugardag og níu á sunnudag. Þar á meðal er flugvél frá bandaríska flugfélaginu Delta, sem fljúga mun Covid-bólusettum bandarískum ferðamönnum til landsins. Delta flaug síðast til Íslands haustið 2019.

Línur eru farnar að skýrast í flugmálum næstu mánuði. Reiknað er með að tíu til tuttugu flugfélög bjóði upp á áætlunarflug til Íslands í sumar að sögn upplýsingafulltrúa Isavia. Til samanburðar flugu 29 flugfélög hingað til lands þegar mest lét í júlí 2018, fyrir fall Wow air.

En hvaða flugfélög eru á leiðinni? Enn er vissulega óvissa á mörkuðum en Icelandair, Lufthansa, Wizz Air og Air Baltic hafa verið með flug síðustu vikur og mánuði - og verða áfram. Þá hefja Delta og Vueling flug um helgina og Play og United Airlines hafa boðað flug í sumar.

Bjarnheiður Hallsdóttir, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar.Vísir/Egill

Bjarnheiður Hallsdóttir formaður Samtaka ferðaþjónustunnar fagnar því að flugáætlanir séu farnar að teiknast upp. Talsvert jákvæðari teikn séu nú á lofti en voru fyrir nokkrum vikum.

„Og það má rekja til ákvörðunar ríkisstjórnarinnar að hleypa hingað bólusettum ferðalöngum utan Schengen því nú erum við að sjá verulegan kipp í eftirspurn frá Bandaríkjunum sem við vonum að verði að veruleika á næstu vikum og mánuðum.“

Hún vonar að framundan sé raunverulegt ferðamannasumar - en það velti allt á gangi bólusetninga.

„Ef allt fer og gengur eins og við áætlum þá ætti þann 1. júlí að vera nokkuð auðvelt að taka á móti ferðamönnum á Íslandi.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×