New York Times fullyrðir að í húsleitarheimild sem bandaríska alríkislögreglan fékk sé vísað til Marie Yovanovitch, fyrrverandi sendiherra Bandaríkjanna í Kænugarði, sem Trump lét kalla heim fyrirvaralaust í kjölfar áróðursherferðar Giuliani og fleiri gegn henni í maí árið 2019. Rannsakendurnir voru einnig á höttunum eftir samskiptum Giuliani við nokkra úkraínska embættismenn sem töldu sig eiga sökótt við sendiherrann.
Þetta er sagt benda til þess að rannsóknin á Giuliani beinist að því hvort að hann hafi reynt að ryðja Yovanovitch úr vegi fyrir hönd Trump eða Úkraínumannanna. Rannsóknin er talin beinast að því hvort að Giuliani hafi starfað á laun sem málsvari erlends ríkis á sama tíma og hann kom fram fyrir hönd Trump þegar hann var forseti. Bandarísk alríkislög skylda þá sem vinna málafylgjustörf fyrir erlend ríki til að skrá sig hjá yfirvöldum.
Giuliani neitar allri sök en hann hefur ekki verið ákærður fyrir glæp til þessa.
Sakaði Giuliani um ófrægingarherferð gegn sér
Brottrekstur Yovanovitch var einn af vendipunktunum í atburðarásinni sem leiddi til þess að fulltrúadeild Bandaríkjaþings kærði Trump fyrir embættisbrot haustið 2019. Giuliani reri að því öllum árum að Yovanovitch yrði fjarlægð úr stöðu sinni þar sem hann taldi hana vera sér Þránd í Götu í því að nálgast skaðlegar upplýsingar um Joe Biden, sem þá var líklegasti keppinautur Trump um forsetaembættið, í Úkraínu.
Yovanovitch bar vitni í rannsókn fulltrúadeildarinnar og sakaði Giuliani um að hafa staðið að ófrægingarherferð í sinn garð. Trump var á endanum kærður fyrir að misbeita valdi sínu þegar hann þrýsti á úkraínsk stjórnvöld að rannsaka Biden og lét halda eftir hundruð milljóna dollara hernaðaraðstoð til landsins.
Giuliani vann meðal annars með Júrí Lútsenkó, fyrrverandi ríkisaksóknara Úkraínu, sem vildi einnig losna við Yovanovitch sem sendiherra Bandaríkjanna. Lögmaður Giuliani staðfestir við AP-fréttastofuna að leitarheimild alríkislögreglunnar hafi náð til samskipta skjólstæðings síns við Lútsenkó.
Rannsókn bandarískra yfirvalda er sögð snúast að hluta um hvort að Giuliani kunni að hafa unnið fyrir Lútsenkó og aðra Úkraínumenn að því að bola Yovanovitch burt. Jafnvel þó að hann hefði ekki fengið greitt fyrir viðvikið í beinhörðum peningnum gætu saksóknar haldið því fram að Úkraínumennirnir hefðu umbunað Giuliani með upplýsingum um Biden og son hans Hunter.
Trump, að undirlagi Giuliani, hélt uppi ásökunum um að Biden-feðgarnir hafi verið viðriðnir spillingu í Úkraínu. Fyrir því lögðu þeir þó aldrei fram trúverðug sönnunargögn. Washington Post sagði frá því í gær að bandaríska alríkislögreglan FBI hefði varað Giuliani við því rússneska leyniþjónustan reyndi að hafa hann að leiksoppi í því skyni að koma höggi á Biden í aðdraganda forsetakosninga síðla árs 2019.
Þrátt fyrir það héldu Trump og Giuliani áfram uppi stoðlausum samsæriskenningum sem virtust runnar undan rifjum rússnesku leyniþjónustunnar, þar á meðal að það hafi í raun verið Úkraínustjórn sem reyndi að hafa áhrif á forsetakosningarnar sem Trump vann árið 2016 en ekki Rússland, þvert á niðurstöðu bandarísku leyniþjónustunnar.
Uppfært 1. maí 2021: Washington Post hefur leiðrétt frétt sína í kjölfar birtingar og dregið fullyrðingar sínar til baka um að FBI hafi varað Giuliani við því að rússneska leyniþjónustan hafi reynt að notfæra sér hann sem hluta af aðgerðum sínum.