Fótbolti

Sigur­mark Suaréz undir lok leiks þýðir að Atlético er enn í bíl­stjóra­sætinu

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Suárez reyndist hetja Atlético Madrid í dag.
Suárez reyndist hetja Atlético Madrid í dag. Goal.com

Luis Suárez reyndist hetja Atlético Madrid er liðið lagði Osasuna 2-1 í næstsíðustu umferð La Liga, spænsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu. Atlético er því enn í toppsæti deildarinnar og dugir sigur í lokaumferðinni til að landa titlinum.

Eftir markalausan fyrri hálfleik var mark dæmt af Atlético þegar tæp klukkustund var liðin. Fimm mínútum síðar var það sama upp á teningnum en bæði mörkin voru tekin af eftir að hafa skoðuð af myndbandsdómara leiksins.

Til að bæta gráu ofan á svart komst Osasuna yfir á 76. mínútu þökk sé marki Ante Budimir.

Sex mínútum síðar tókst vinstri bakverðinum Renan Lodi að jafna metin fyrir Atlético en á þessum tímapunkti var Real Madrid að vinna svo jafntefli var ekki nóg.

Það var því að sjálfsögðu framherjinn magnaði Luis Suárez sem steig upp á 88. mínútu þegar hann sendi fyrirgjöf Yannick Carrasco í netið og tryggði Atlético ómetanlegan sigur. 

Lokatölur 2-1 og Atlético Madrid einum sigri frá því að verða Spánarmeistari.


Spænski boltinn, La Liga, er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. La Liga er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×