Meginhraunáin úr gígnum liggur til austurs úr Geldingadölum yfir í nafnlausa dalinn. Hraunáin liggur þar mun hærra uppi heldur en hraunjaðarinn við varnargarðana segir í færslu hópsins.
„Því er ljóst að hraunjaðarinn mun einungis halda áfram að þykkna og skríða fram á við á meðan þær aðstæður eru fyrir hendi.“
Svona undanhlaup eins og nú séu í gangi komi því ekki á óvart.
„Þegar spólað er til baka í vefmyndavél RÚV má greinilega sjá hvernig hraunjaðarinn við varnargarðinn lyftist upp nú fyrir hádegi, áður en hraunbráðinn braut sér loks leið út úr jaðrinum.“
Að neðan má sjá streymi úr vefmyndavél Vísis.
Ríkisstjórnin samþykkti á þriðjudag að verja allt að 20 milljónum króna til þess að hækka varnargarðana fyrir ofan Nátthaga. Þegar hafa verið reistir tveir fjögurra metra háir varnargarðar og verða þeir hækkaðir í allt að átta metra.
Tilgangur framkvæmdanna er að varna því að hraun flæði úr eldgosinu niður í Nátthaga og verja þannig Suðurstrandaveg og ljósleiðara sem liggur í mynni Nátthaga.
Hrauntjörn verið að fyllast ofarlega í Nafnlausadal. Óljóst er hversu mikið álag kæmi á varnargarðana ef fyrirstaða hrauntjarnarinnar brestur skyndilega og lagði almannavarnadeild ríkislögreglustjóra því til hækkun garðanna.
Ekki er gert ráð fyrir að lengra verði gengið í hækkun þeirra.
Stíflugerðarmenn á gosstöðvunum í Fagradalsfjalli stóðu í æsispennandi kapphlaupi í gærkvöldi og fram á nótt við að ryðja upp neyðargörðum þegar hraunrennsli stefndi á eystri varnargarðinn ofan Nátthaga. Búið er að bæta við annarri jarðýtu til að hraða styrkingu varnargarðanna. Nánar um það hér.