Brugðið var á þetta ráð þar sem Bombardier Q400 vél félagsins ílengdist í viðhaldi og stór ferðahelgi, hvítasunnuhelgin, er framundan. Því var ákveðið að sameina tvö flug til Akureyrar seinnipartinn í dag og nýta MAX vél í flugið, segir Ásdís.
MAX vélarnar taka 160 farþega en Q400 vélarnar 76 farþega. Ekki munar miklu á flugtíma vélanna á þessum stutta fluglegg. Farflugshraði 737 MAX er um 840 kílómetrar á klukkustund en Q400 um 670 kílómetrar á klukkustund.

Það er flugvélin Mývatn, TF-ICN, sem fær þetta verkefni, en áætlað er að hún lendi á Reykjavíkurflugvelli um klukkan 16:10. Flugtak frá Reykjavíkurflugvelli er áætlað klukkan 17:10 og frá Akureyrarflugvelli klukkan 18.40. Hátt í 140 farþegar eru bókaðir í flugið frá Reykjavík og um 130 til baka frá Akureyri.
„Þarna koma kostir samþættingar félaganna berlega í ljós – þetta gefur okkur aukinn sveigjanleika til að bregðast við aðstæðum sem þessum, sem er mjög ánægjulegt,“ segir Ásdís Ýr en rekstur dótturfélagsins Air Iceland Connect var sameinaður rekstri Icelandair fyrir tveimur mánuðum.

Max-þotur voru kyrrsettar um allan heim í mars 2019 eftir tvö mannskæð flugslys. Eftir endurbætur fengu þær flughæfisskírteini á ný í kringum síðustu áramót. Þotan Mývatn lenti einmitt á Reykjavíkurflugvelli í byrjun marsmánaðar þegar Icelandair hóf notkun þeirra á ný en lendingin var sýnd í þættinum Ísland í dag:
Hér má sjá frétt Stöðvar 2 frá endurkomu vélanna til Íslands úr geymslu á Spáni í febrúar: