Skoðun

Ný ein­hverfu­deild í Reykja­vík

Diljá Ámundadóttir Zoëga skrifar

Í menntastefnu Reykjavíkurborgar, Látum draumana rætast segir að það sé mikilvægt verkefni að tryggja jöfn tækifæri og aðgang barna að fjölbreyttu námi og starfi sem er í samræmi við áhuga þeirra og hæfileika. Það verkefni þarf að eiga við öll börn, líka börn með einhverfu eða börn með fötlun. Við þurfum að búa til rými í samfélaginu fyrir öll börn og mæta þeim þar sem þau eru hverju sinni.

Í Reykjavík eru nú reknar sex einhverfudeildir í grunnskólum borgarinnar, þar sem hver deild hefur 7-13 nemendur. Á fundi borgarráðs í gær var svo samþykkt að fjármagna eina sérdeild til viðbótar fyrir nemendur með einhverfu á unglingastigi. Þessi einhverfudeild verður í Réttarholtsskóla og á að taka til starfa með nýju skólaári í haust.

Meginstefnan í íslensku menntakerfi er nám án aðgreiningar. Við þurfum skólakerfi sem hugsar um hagsmuni barnanna. Skólakerfi sem býr til rými fyrir öll börn, einkennist af skilningi og virðingu fyrir fjölbreytileika mannlífs. En líka skólakerfi sem veitir þann stuðning sem þarf þegar þannig ber undir. Ekkert barn er eins og það á líka við börn með einhverfu.

Við sem berum ábyrgð á því að móta skólakerfið þurfum að laga það að þörfum barnanna en ekki ætlast til þess að þau lagi sig að kerfinu. Við sem samfélag höfum alla burði til þess að móta slíkt kerfi og þar með mynda farveg fyrir ólíka einstaklinga með fjölbreytta færni til að vaxa og dafna.

Höfundur er fulltrúi Viðreisnar í skóla- og frístundaráði í Reykjavík




Skoðun

Sjá meira


×