„Það er töluverð vegalengd frá Nátthaga og að Suðurstrandarvegi. En þetta streymir og heldur bara áfram leið sína,“ sagði Bogi Adolfsson, formaður Björgunarsveitarinnar Þorbjarnar í samtali við fréttastofu.
Elvar Þór Ólafsson er mikill áhugamaður um eldgos. Hann náði myndböndum af hrauninu flæða niður í Nátthaga. Líkt og sést á myndbandinu hér að neðan rann hraunið á töluverðum hraða niður í Nátthaga og fylgdi því mikill hiti.
Í næsta myndbandi sést rauðglóandi hraunið vel.
Elvar Þór fann fyrir miklum hita þegar hraunið brenndi mosa á ferð sinni.
Hörn Hrafnsdóttir, umhverfis- og byggingarverkfræðingur sagði í samtali við fréttastofu í morgun að líklegt væri að það tæki einhverjar vikur fyrir hraun að renna yfir Suðurstrandarveg og að mögulega væri hægt að setja upp varnargarða neðst í Nátthaga til að reyna að koma í veg fyrir að hraun flæði yfir Suðurstrandarveg.