Samningur hins 43 ára gamla Buffon við Juventus rann út að ný afstaðinni leiktíði á Ítalíu. Þessi reynslumikli markvörður stefnir á að spila áfram og hefur nú verið orðaður við sitt fyrrum félag, Parma.
Það var ítalski blaðamaðurinn Fabrizio Romano sem greindi frá þessu á Twitter-síðu sinni.
Buffon lék með Parma þegar liðið var talið eitt það áhugaverðasta á Ítalíu. Alls lék hann 168 deildarleiki með liðinu frá árinu 1995 til 2001. Með Buffon innanborðs vann liði Coppa Italia [ítalska bikarinn], Ofurbikar Ítalíu sem og UEFA-bikarinn.
Buffon til Juventus árið 2001 fyrir metfé. Var það fé vel eytt en Buffon lék með liðinu allt til ársins 2018 er hann samdi við París-Saint-Germain til eins árs. Hann sneri svo aftur til Juventus sumarið 2019 en er nú samningslaus.
Buffon er afar reynslumikill markvörður en samkvæmt vefsíðunni Transfermarkt hefur hann spilað 930 deildar, bikar og Evrópuleiki á ferlinum. Þar af eru 657 í Serie A, ítölsku úrvalsdeildinni. Þá spilaði hann 176 A-landsleiki ásamt 24 yngri landsleikjum.
Ítalski boltinn, Serie A, er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Serie A er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.