Hlutafjárútboðið hófst á mánudaginn í síðustu viku og var stærsta frumútboð hlutabréfa sem farið hefur fram á Íslandi.
Margföld umframeftirspurn var í útboðinu og ljóst að gríðarlegur áhugi var meðal Íslendinga á að eignast hlut í bankanum. Heildareftirspurn nam samtals 486 milljörðum króna en heildarsöluandvirði útboðsins er ekki nema 55,3 milljarðar króna ef valréttir til að mæta umframeftirspurn verða nýttir að fullu.
Umframeftirspurnin nam því 430,7 milljörðum króna.
Sjá einnig: Hlutafjárútboð hafið og markaðsvirði Íslandsbanka áætlað 150 milljarðar króna.
Verð á hverjum útboðshlut er 79 krónur og voru tilboð upp að einni milljón króna ekki skert.
Erlendir fjárfestar munu eiga um 11 prósent
Í tilkynningu frá bankanum segir að upplýsingar um úthlutun hluta verði veittar ekki seinna en á morgun, miðvikudaginn 16. júní.
„Bankinn og seljandinn hafa, í þágu umsjónaraðila útboðsins, skuldbundið sig til að selja ekki frekari hluti í bankanum í 180 daga eftir fyrsta viðskiptadag hlutabréfanna,“ segir einnig í tilkynningunni en til sölu var allt að 35 prósent hlutur í bankanum.
Eftir útboðið verður 65 prósent bankans því enn í eigu ríkisins en gera má ráð fyrir að innlendir fjárfestar fari með um 24 prósent og erlendir fjárfestar með um 11 prósent af heildarhlutafé bankans.