Rúna Hauksdóttir Hvannberg, forstjóri Lyfjastofnunar, segir lögreglu nú skoða ábendinguna enda geti lyfjagjöf sem þessi verið hættuleg.
„Það voru engar upplýsingar um hvert innihald vökvans var. Það getur stafað af því mikil hætta að afhenda svona óskilgreinda vöru. Það er ákvæði í lyfjalögum sem fjallar um markaðssetningu og dreifingu og ávísun lyfja. Þetta uppfyllir þau engan veginn. Fyrir utan það að þetta er öryggisatriði fyrir sjúklinga, að vita ekki hvað er í þessu,“segir Rúna.

DV sagði frá því í gærkvöldi að lögregla hafi yfirheyrt Guðmund Karl Snæbjörnsson lækni vegna málsins en hann hefur talað fyrir notkun lyfsins ívermektín gegn Covid-19. Lyfjastofnun hefur ekki samþykkt lyfið til meðferðar gegn sjúkdómnum og það hefur Lyfjastofnun Evrópu ekki gert heldur.
Í viðtali við DV sagði Guðmundur Karl Lyfjastofnun hafa kært sig eftir að hann krafðist vísindalegra raka fyrir þeirri afstöðu. Rúna segir kæru stofnunarinnar ekki beinast gegn einstaklingi og að málið snúist ekki um ívermektín. Ekki liggi fyrir hvað hafi verið í hinum dularfulla vökva í raun og veru.

„Lögreglan hefur skoðað þetta og þessi vökvi er í einhverri greiningu. Það eru tiltekin einhver innihaldsefni, ívermektín er þar ásamt öðrum, en það veit enginn hvort það er þarna í eða hvernig framleiðslan er,“ segir Rúna.
Bólusetningar gegn kórónuveirunni halda áfram í Laugardalshöll í dag og verða níu til tíu þúsund skammtar af bóluefni Janssen í boði í dag. Þetta er síðasti Janssen-dagurinn fyrir sumarfrí. Opið verður fyrir alla, þá sérstaklega fyrir fólk sem hefur smitast, eftir hádegi vegna dræmrar mætingar.
Enginn greindist með kórónuveiruna utan sóttkvíar í gær.