Björgunarlið leitar enn í rústunum með aðstoð leitarhunda og hljóðsjár. AP-fréttastofan hefur eftir Daniellu Levine Cava, borgarstjóra Miami-Dade-sýslu, að auk fimmta líksins hefðu fleiri líkamsleifar fundist í dag.
„Aðalforgangsmál okkar er enn leit og björgun og að bjarga eins mörgum lífum og við getum,“ sagði Levine Cava.
Eftir líkfundinn í dag er 156 manns enn saknað. Fólkið er af fjölda ólíkra þjóðerna. Ísraelsstjórn hefur sagst ætla að senda verkfræðinga og rústabjörgunarsérfræðinga til aðstoðar en tuttugu ísraelskir ríkisborgarar eru á meðal þeirra sem er saknað.
Eldur sem kraumar djúpt í rústunum og reykur sem leggur frá honum torveldar leitar- og björgunarstarf í bænum Surfside nærri Miami á Flórída. Blokkarálman hrundi aðfararnótt fimmtudags.
Í ljós hefur komið að verkfræðingar vöruðu við skemmdum á blokkinni fyrir þremur árum. Yfirvöld á Flórída hafa nú tilkynnt að þau ætli að láta fara yfir allar byggingar sem nálgast fjörutíu ára skoðun eins og Champlain-turninn sem hrundi til þess að tryggja öryggi þeirra.