Húsleitin beindist að ritstjóra og blaðamönnum Proekt, fréttasíðu sem stundar rannsóknarblaðamennsku. Lögreglumenn leituðu í íbúð Romans Badanin, aðalritstjóra, og Mariu Zholobovu, blaðamanns miðilsins. Þá fóru lögreglumennirnir um heimili foreldra Mikhails Rubin, aðstoðarritstjóra. Rubin var sjálfur tekinn höndum nærri íbúð Zholobovu og færður heim til foreldra sinna, að sögn AP-fréttastofunnar.
Proekt sagði á samfélagsmiðlinum Telegram að húsleitin hefði verið gerð eftir að fjölmiðilinn boðaði birtingu á rannsókn á meintum auðæfum Vladímírs Kolokoltsev, innanríkisráðherra. Umfjöllunin birtist á vefnum skömmu eftir að húsleitin hófst.
Síðar sagði vefmiðillinn að húsleitin á að minnsta kosti tveimur staðanna tengdist meiðyrðamáli kaupsýslumanns í Pétursborg vegna heimildarmyndar Badanin og Zholobovu frá 2017 þar sem hann var bendlaður við skipulagða glæpastarfsemi.
Stjórn Pútín forseta hefur háð harða herferð gegn frjálsum fjölmiðlum og stjórnarandstöðunni undanfarnar vikur. Fjöldi stjórnrandstæðinga hefur sætt handtökum og húsleit. Þá voru Meduza og VTimes, tveir sjálfstæðir fjölmiðlar, lýstir „erlendir útsendarar“ en það hefur í för með sér aukið eftirlit yfirvalda. VTimes var lokað í kjölfarið en aðstandendur Meduza hófu hópfjármögnun til þess að bjarga miðlinum.
Þá voru samtök Alexei Navalní, eins helsta leiðtoga stjórnarandstöðunnar, gegn spillingu lýst ólögleg öfgasamtök nýlega. Skilgreiningin þýðir að fólk sem hefur tengst samtökunum getur ekki boðið sig fram til þingkosninga sem fara fram í haust.