Á myndbandi frá AP má sjá að Katrínu skrikaði fótur er hún var á leið út úr höllinni, og Macron brást allur hinn herramannslegasti við. Forsetinn gerði sig líklegan til að grípa hana og rétti henni hjálparhönd sem hún afþakkaði auðmjúklega. Þau föðmuðust í kveðjuskyni og Katrín hélt sína leið.
Katrín og Macron ræddu annars ýmislegt á fundi sínum; möguleika á nánari samstarfi Íslands og Frakklands í grænum lausnum, loftslagsmálum og jafnréttismálum, sérstaklega hvað varðar jafnlaunamál.
Forsætisráðherra skrifar á Facebook að sérstaklega hafi verið rætt um íslenska fæðingarorlofskerfið og mikilvægi þess fyrir jafnrétti á vinnumarkaði.

Farið var yfir heimsfaraldurinn, menningartengsl Íslands og Frakklands, viðskipti landanna og Norðurslóðamál.
„Fundurinn var góður og klárlega mikil tækifæri í auknu samstarfi þessara ríkja,“ skrifar Katrín, sem er annars stödd í París vegna átaksverkefnis UN Women, Kynslóðar jafnréttis.