Mikkel Damsgaard kom Dönum yfir eftir hálftímaleik með frábæru marki beint úr aukaspyrnu. Tæpum tíu mínútum síðar jöfnuðu Englendingar hins vegar þegar Simon Kjær, fyrirliði Dana, varð fyrir því óláni að skora sjálfsmark.
1-1 stóð í hálfleik og ekkert var skorað í síðari hálfleiknum. Því þurfti að framlengja leikinn.
Í framlengingunni skoraði Harry Kane það sem reyndist sigurmark leiksins. Hann fylgdi þá eftir eigin vítaspyrnu sem Kasper Schmeichel, markvörður Dana, hafði varið. Vítaspyrnudómurinn var umdeildur þar sem Joakim Mæhle var sagður hafa brotið á Raheem Sterling, en snertingin var ekki mikil.
Það dugði Englendingum yfir línuna. Þeir unnu 2-1 sigur og eru komnir í úrslit EM í fyrsta sinn þar sem þeir mæta Ítölum á sunnudagskvöld.
Mörkin og vítadóminn má sjá í spilaranum að neðan.

EM 2020 verður sýnt á Stöð 2 Sport EM 2020 sem er hluti af Sportpakkanum, Stóra pakkanum og Risapakkanum. EM 2020 er einnig hægt að kaupa stakt á lækkuðu verði frá og með 24. júní á kr. 3.990.