Hinn sænski Zlatan hefur spilað á Ítalíu stóran hluta síns ferils, með Juventus, Inter og AC Milan. Þessi 39 ára gamli framherji sneri aftur til AC Milan síðasta sumar og varð þannig liðsfélagi Gianluigi Donnarumma, landsliðsmarkvarðar Ítalíu.
Hinn 22 ára gamli Donnarumma fékk aðeins tvö mörk á sig í vítaspyrnukeppninni gegn Englandi í gærkvöld og varði tvær spyrnur. Hann fékk sömuleiðis aðeins á sig tvö mörk í vítaspyrnukeppninni gegn Spáni í undanúrslitum.
„Eitt ár með mér og þú ert orðinn meistari. Ekkert að þakka,“ skrifaði Zlatan í Instagram-sögu með mynd af Donnarumma, hógvær að vanda.

Zlatan skaut einnig á þá sem hafa gagnrýnt ítalska boltann síðustu ár. „Ekki slæmt að spila í seríu A,“ skrifaði Svíinn.
Zlatan missti af EM vegna hnémeiðsla en vonir standa til þess að hann nái upphafi nýs tímabils með AC Milan. Þar mun hann þó ekki spila áfram með Donnarumma því markvörðurinn hefur náð samkomulagi við PSG í Frakklandi.