England tapaði fyrir Ítalíu í úrslitaleiknum í fyrradag. Englendingar komust yfir strax á 2. mínútu með marki Lukes Shaw og léku vel í fyrri hálfleik. Í þeim seinni misstu þeir tökin á leiknum og Leonardo Bonucci jafnaði fyrir Ítali. Úrslitin réðust á endanum í vítaspyrnukeppni þar sem Ítalía hafði betur, 3-2.
Ferdinand segir að Southgate hafi verið of lengi að skipta inn á í úrslitaleiknum og Roberto Mancini, þjálfari ítalska liðsins, hafi einfaldlega skákað og mátað hann.
„Mancini notaði hálfleikinn betur en Southgate. Þeir náðu heljartaki á leiknum og við vorum fastir inni á eigin vallarhelmingi,“ sagði Ferdinand.
Hann vildi sjá ferska leikmenn koma inn á þegar Ítalir voru með yfirhöndina, til að reyna að breyta gangi mála.
„Við höfum hrósað þjálfaranum í hástert fyrir breytingarnar sem hann gerði á mótinu, bæði á liðsskipan og leikkerfi, en í þessum leik klikkaði hann á því sviði. Þegar þeir skoruðu voru þeir með vindinn í bakið. Þá fannst mér, og það er auðvelt að vera vitur eftir á, hann eiga að skipta [Jack] Grealish, [Jadon] Sancho eða [Marcus] Rashford inn á,“ sagði Ferdinand.
„Allt mótið höfum við talað um að okkar mesti styrkleiki sé breiddin í hópnum, að liðið veikist ekki við skiptingar og varamennirnir komi með eitthvað nýtt að borðinu en þeim var ekki leyft að gera það í stærsta leiknum. Þeir gerðu það í öllum öðrum leikjum en í stærsta leiknum virtist Southgate frjósa og hugsa: förum með þetta í vítakeppni og vonum það besta.“
Southgate hefur komið enska liðinu í undanúrslit á tveimur stórmótum í röð sem hefur aldrei áður gerst í sögu þess. Englendingar bíða hins vegar enn eftir sínum fyrsta sigri á stórmóti síðan 1966.

EM 2020 verður sýnt á Stöð 2 Sport EM 2020 sem er hluti af Sportpakkanum, Stóra pakkanum og Risapakkanum. EM 2020 er einnig hægt að kaupa stakt á lækkuðu verði frá og með 24. júní á kr. 3.990.