Aldrei hafa fleiri greinst á einum degi hér á landi með Covid-19 frá því að faraldurinn hófst fyrir um einu og hálfu ári síðan, en fyrra metið var 106, þann 24. mars á síðasta ári.
Af þeim sem greindust í gær eru 84 fullbólusettir, einn hálfbólusettur og 36 óbólusettir, að því er fram kemur á covid.is
Í uppfærðum tölum á covid.is sem birtust skömmu fyrir klukkan 11 var greint frá 82 innanlandssmitum. Þar af voru 25 óbólusettir og 59 utan sóttkvíar við greiningu. Samkvæmt þeim tölum eru 695 nú í einangrun hér á landi og 1.976 í sóttkví.
Á upplýsingafundi almannavarna kom hins vegar fram að enn væri verið að greina sýni og að búist væri við því að fjöldi smitaðra myndi aukast, líkt og nú er raunin.
Líkt og í gær eru þrír sjúklingar inniliggjandi á Landspítala með Covid-19. Enginn þeirra er á gjörgæslu. Fjórtán starfsmenn spítalans eru nú í einangrun og hefur fækkað um einn frá því í gær.