Yfir 30 stúdentar hafa greinst eftir heimkomuna úr útskriftarferðinni á föstudag. Hópurinn flaug til landsins á vegum Heimsferða og deildi leiguvél með öðrum farþegum ferðaskrifstofunnar og Úrval Útsýns.
Heimsferðir upplýstu farþega sína um það á laugardag að þeir þyrftu að fara í sóttkví vegna smitanna. Á svipuðum tíma voru um tuttugu farþegar Úrval Útsýns einungis hvattir til að fara í sýnatöku. Það var loks seint á sunnudagskvöld sem réttum skilaboðum var komið áleiðis til þeirra.
Ekki upplýst um hina farþeganna
Samkvæmt heimildum fréttastofu var rakningateymið ekki upplýst um það strax í upphafi að farþegar frá Úrval Útsýn hafi verið um borð í umræddri vél.
Leiddi þetta misræmi til mikillar óvissu meðal viðskiptavina ferðaskrifstofunnar. Tveir farþegar sem Vísir ræddi við fóru í sjálfskipaða sóttkví eftir að þeir fréttu að sessunautur þeirra hafi greinst með Covid-19. Þeir fengu loks tilkynningu frá Úrval Útsýn á ellefta tímanum á sunnudagskvöld um að þeim bæri að fara í sóttkví.
Áttu ekki eftir að fá símtal
Hjördís Guðmundsdóttir, upplýsingafulltrúi almannavarna, segir um að ræða misskilning sem búið sé að leiðrétta en ekki stóð til að rakningateymið myndi hringja í umrædda farþega. Samkvæmt núgildandi verklagi teymisins er það látið duga við slíkar aðstæður að koma boðum um sóttkví áfram í gegnum ferðaskrifstofu eða flugfélag.
Hjördís telur ekki ástæðu til að hafa áhyggjur af því að töfin auki hættuna á því að stærsta hópsmit þessarar bylgju nái frekari útbreiðslu.
„Við höfum ekki beint áhyggjur af því en auðvitað hefði verði gott ef allir hefðu fengið sömu skilaboð strax.”
Umfang smitrakningar að aukast
Hjördís segir gríðarlegt vera á rakningateyminu þessa daganna en fjölgun innanlandssmita náði hámarki í gær þegar 123 smit greindust. Hafa aldrei fleiri greinst hérlendis á einum degi frá því að faraldurinn braust út.
Almannavarnir vonast til að nýlegar samkomutakmarkanir komi til með að einfalda smitrakningu.
Þórunn Reynisdóttir, forstjóri Úrval Útsýns, hefur ekki gefið kost á viðtali vegna málsins. Ekki hefur náðst í Tómas J. Gestsson, framkvæmdastjóra Heimsferða.