„Það er í rauninni okkar helsta von að það komi sértæk bóluefni sem virka betur gegn delta. Sem virka álíka vel gegn delta eins og bóluefnin sem við eigum nú virkuðu gegn upphaflegu Wuhan-veirunni,“ sagði Kamilla á upplýsingafundi almannavarna í dag.
Eins og greint hefur verið frá eru það heilbrigðisyfirvöldum mikil vonbrigði hve mikið verr bóluefnin virka á delta-afbrigði veirunnar en gert hafði verið ráð fyrir.
Rannsóknir hafa þó bent til þess að tveir skammtar af bóluefni Pfizer virki best gegn afbrigðinu, 88 prósent vörn, og tveir skammtar af AstraZeneca virki einnig vel gegn því, veiti 67 prósent vörn.
Talið er að einn skammtur af Jansen-bóluefninu veiti ekki nógu góða vörn gegn afbrigðinu og er fyrirhugað að gefa öllum þeim sem hafa fengið Jansen-bóluefnið á Íslandi annan skammt af Pfizer-bóluefninu strax í næsta mánuði.
Ný afbrigði helsta áhyggjuefnið
En þá er að vona að skæðari afbrigði komi ekki fram í bráð:
„Það er bara hætt við því eins og staðan er núna, með mjög útbreidd smit víða um heim, að það komi áfram fram ný afbrigði,“ sagði Kamilla á fundinum í dag.
Þar viðrar hún sömu áhyggjur og Rochelle Walensky, yfirmaður Sóttvarnastofnunar Bandaríkjanna, gerði nýlega:
„Stóra áhyggjuefnið núna er að næsta afbrigði veirunnar sem kann að spretta upp - og gæti myndast eftir aðeins örfáar stökkbreytingar - geti komið sér undan þeirri vörn sem bóluefni okkar veita í dag,“ var haft eftir henni í frétt The New York Times í vikunni.
Kamilla vonar þó að þróun bóluefna fari einnig fram á næstunni og vonin stendur auðvitað til þess að nýtt sértækt bóluefni komi fram sem virkar vel gegn delta-afbrigðinu og vonandi þeim afbrigðum sem eiga eftir að koma fram síðar.
„En við getum náttúrulega voðalega lítið sagt til um það hversu mikilli útbreiðslu þau [ný afbrigði] gætu mögulega náð eða hvernig bóluefnin sem við erum ekki einu sinni komin með gætu virkað gegn þeim,“ sagði Kamilla. „Þannig að það er ekki hægt að spá fyrir um þetta.“
Hér er hægt að horfa á upplýsingafundinn í dag í heild sinni: