Í tilkynningunni segir hin sextíu ára gamla Griffin að hún muni undirgangast aðgerð þar sem helmingur af vinstra lunga hennar verður fjarlægður.
„Já ég er með lungnakrabbamein jafnvel þó ég hafi aldrei reykt!,“ segir grínistinn á Instagram-síðu sinni.
Hún segir að læknarnir séu bjartsýnir enda hafi krabbameinið fundist á fyrsta stigi. Hún segist vonast til þess að þurfa hvorki að undirgangast lyfjameðferð né geislameðferð.
„Ég ætti að vera komin á fullt aftur innan mánaðar eða svo.“
Griffin tekur fram að hún sé full bólusett og telur að annars hefðu afleiðingarnar orðið mun alvarlegri.
„Gerið þið það, farið í reglulegar heilsufarsskoðanir. Það mun bjarga lífi ykkar,“ segir Griffin.
Griffin hefur misst tvö systkini úr krabbameini á síðustu árum. Gary, bróðir hennar, lést úr fjórða stigs krabbameini í vélinda árið 2014, þá 63 ára gamall.
Þá barðist systir hennar, Joyce, við krabbamein árið 2017 og vakti það athygli þegar Griffin rakaði af sér hárið henni til stuðnings. Joyce lést þó í september sama ár, þá 65 ára gömul.
Griffin kom hingað til lands árið 2017 og var með uppistand í Eldborgarsal Hörpu.