Fótbolti

Tottenham sagt vera að kaupa Martínez - Inter fær Dzeko

Valur Páll Eiríksson skrifar
Lautaro Martínez er sagður á leið til Lundúna.
Lautaro Martínez er sagður á leið til Lundúna. Claudio Villa - Inter/Inter via Getty Images

Enska knattspyrnufélagið Tottenham Hotspur hefur náð samkomulagi við Internazionale frá Ítalíu um kaup á argentínska framherjanum Lautaro Martínez. Inter mun fá Edin Dzeko frá Roma til að fylla í skarð hans.

Martínez hefur verið orðaður við Barcelona á Spáni og nágranna Tottenham í Arsenal í sumar en þeir hvítklæddu virðast vera að vinna kapphlaupið um þann argentínska. Breskir miðlar greina frá því að Tottenham hafi fengið 60 milljón punda tilboð samþykkt.

Kaupin eru ekki sögð greiða leið Harry Kane frá félaginu heldur er þeim ætlað að spila saman hjá Tottenham. Martínez er 23 ára gamall og hefur myndað öflugt sóknarpar ásamt Romelu Lukaku síðustu misseri.

Lukaku er einnig sagður á leið frá Inter til Lundúna. Chelsea mun kaupa hann frá Inter á tæplega 100 milljónir punda.

Inter, sem varð Ítalíumeistari undir stjórn Antonio Conte í vor, virðist því vera að missa báða framherja sína frá félaginu. Blaðamaðurinn Fabrizio Romano greinir frá því að Edin Dzeko sé á leið til félagsins til að fylla annað plássið.

Dzeko hefur leikið með Roma við góðan orðstír undanfarin ár en færir sig um set innan Ítalíu. Þá þykir líklegt að Kólumbíumaðurinn Duván Zapata komi einnig til Inter frá Atalanta og myndi nýtt sóknarpar liðsins ásamt Dzeko.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×