Haraldur Ólafsson prófessor í veðurfræði er staddur í Athenu, höfuðborg Grikklands, þar sem hann stundar nú rannsóknir. Hitastig í borginni hefur náð allt að fjörutíu og fimm gráðum að undanförnu, sem hann segir afar íþyngjandi fyrir íbúa.
„Það var nú líklega það versta að fá reykinn yfir borgina. Þetta var dálítið eins og nýarsnótt í Reykjavík, nema það að maður veit að það gengur yfir á mjög stuttum tíma og þessi svækja sem fylgdi hitanum var mjög óþægileg,“ segir Haraldur.
Þegar fréttastofa náði tali af Haraldi í dag, var hitinn í kringum þrjátíu og fimm gráður.
„Núna er semsagt töluvert svalara heldur en var fyrir nokkrum dögum síðan og fólk upplifir þetta svona sem hálfgert kuldakast og allir eru glaðir úti um allar jarðir.“
Þó innfæddir gleðjist yfir lækkandi hita er hljóðið í þeim enn þungt. Forsætisráðherra landsins hefur til að mynda lýst sumrinu sem martraðakenndu og slökkviliðsmenn frá ýmsum löndum hafa verið sendir til Grikklands til þess að berjast við fimmtíu til hundrað elda á degi hverjum. Landhelgisgæsla Grikklands hefur þá flutt fjölda fólks sem flúð hefur eldana og niður á strönd, í öruggt skjól.
„Það eru mörg hús sem hafa farið hér og það eru mörg, mörg þúsund manns sem hafa orðið að flýja heimili sín. Bæði á Eviu, sem er fyrir norðan Aþenu og líka bara hér í þeim byggðum sem eru fyrir norðan borgina.“