Samkvæmt frétt breska ríkisútvarpsins fannst lík kaþólska prestsins Olivier Lemaire á heimili hans í morgun. Maðurinn sem er grunaður um morðið bjó hjá Lemaire, en hann er hælisleitandi frá Rúanda og var sjálfboðaliði í dómkirkjunni í Nantes. Hann er sagður hafa gefið sig fram við lögreglu í morgun og viðurkennt að hafa myrt Lemaire.
Maðurinn játaði að hafa kveikt í dómkirkjunni í Nantes í júlí í fyrra. Maðurinn var sjálfboðaliði í kirkjunni og bar ábyrgð á því að læsa henni sama dag og eldurinn blossaði upp. Hann var strax grunaður um íkveikjuna og handtekinn samdægurs. Eldurinn kom upp á þremur mismunandi stöðum í kirkjunni og eyðilagðist til dæmis orgel kirkjunnar í eldsvoðanum.
Morðið hefur vakið upp hörð viðbrögð í Frakklandi og tísti Marine Le Pen, formaður hægriöfgaflokksins Þjóðfylkingarinnar, í morgun þeirri spurningu hvers vegna manninum hafi ekki verið vísað úr landi. Umsókn hans um hæli hefur verið neitað en stjórnvöld hafa ekki viljað vísa honum úr landi vegna rannsóknarinnar á aðild hans að íkveikjunni í Nantes.