Erlent

Júlí hlýjasti mánuður á jörðinni frá upphafi mælinga

Kjartan Kjartansson skrifar
Fólk beitir ýmsum brögðum til að glíma við sumarhitann í Róm þessa dagana. Í Evrópu var síðasti mánuður annar hlýjasti júlímánuður frá upphafi mælinga.
Fólk beitir ýmsum brögðum til að glíma við sumarhitann í Róm þessa dagana. Í Evrópu var síðasti mánuður annar hlýjasti júlímánuður frá upphafi mælinga. Vísir/EPA

Meðalhiti jarðar í júlí var sá hæsti sem mælst hefur á jörðinni frá upphafi veðurathugana fyrir hátt í einni og hálfri öld. Norðurhvelið var meira en 1,5°C hlýrra en meðaltal 20. aldarinnar.

Samkvæmt nýjum tölu Haf- og loftslagsstofnunar Bandaríkjanna (NOAA) var meðalhitinn yfir landi og hafi á jörðinni 0,93°C hærri en meðaltal 20. aldarinnar sem var 15,8°C. Þar með varð júlí hlýjasti mánuðurinn í 142 ára mælingarsögu, að því er segir í tilkynningu á vef NOAA.

Meðalhitinn yfir landi á norðurhveli í júlí sló met sem var sett árið 2012 og var 1,54°C yfir meðaltali 20. aldarinnar.

Í Asíu var júlí einnig sé hlýjasti frá upphafi mælinga og sló met sem var sett árið 2010. Í Evrópu var síðasti mánuður annar hlýjasti júlímánuðurinn þar, aðeins júlí 2018 var hlýrri. Í Norður- og Suður-Ameríku, Afríku og Eyjaálfu var júlí í hópi tíu heitustu júlímánaða þar. Nú er nær öruggt að 2021 verði á meðal tíu hlýjustu ára frá upphafi mælinga.

Hafísútbreiðsla á norðurskautinu í júlí var sú fjórða minnsta í júlí mánuði frá því að gervihnattamælingar hófust fyrir 43 árum. Hún hefur aðeins mælst minni árin 2012, 2019 og 2020. Í Suður-Íshafinu, þar sem nú er vetur, var útbreiðsla hafíssins yfir meðaltali og hefur hún ekki verið meiri frá árinu 2015. Útbreiðslan þar var sú áttunda mesta frá því að mælingar hófust.

Fyrr í þessari viku birti milliríkjanefnd Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar (IPCC) nýja úttektarskýrslu á stöðu loftslags jarðar þar sem kom meðal annars fram að markmið Parísarsamkomulagsins um að halda hlýnun innan 1,5°C miðað við tímabilið fyrir iðnbyltingu brysti líklega strax á næsta áratug.

Aukin vissa er nú fyrir því að aukin hlýnun jarðar hafi í för með sér vaxandi veðuröfgar, þar á meðal aftakaúrkomu og öflugri hitabylgjur og þurrka.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×