Zara lagði af stað frá heimalandi sínu Belgíu í gær og snýr ekki þangað aftur fyrr en 4. nóvember næstkomandi, eða þremur mánuðum eftir brottför. Þá mun hún hafa heimsótt 52 lönd á ferð sinni í kringum jörðina.
Eftir lendingu sagði hún að flugið yfir Íslandi hefði verið stórkostlegt.
„Ég flaug yfir eldfjallið og það var magnað. Ég hafði stórfenglegt útsýni. Ég held að þetta sé eitt fallegasta land í heimi.“
Zara mun á leið sinni forðast það að lenda á stórum alþjóðaflugvöllum, ef frá er talinn JFK-flugvöllurinn í New York í Bandaríkjunum en hún miðar við að hver flugleggur sé ekki lengri en fimm til sex tímar.
Hvernig tilfinning er það að vera yngsta konan sem flýgur ein umhverfis jörðina?
„Ég er auðvitað ekki búinn að því enn. En það er sannarlega skrýtin tilfinning því að ég er að slá metið um býsna mörg ár. Kvennametið er þrjátíu ára og karlametið átján ára. Það munar tólf árum. Það er mjög mikið.“
Núverandi methafi kvennamegin er Bandaríkjamaðurinn Shaesta Waiz en hún var sem fyrr segir þrítug er hún flaug ein í kringum hnöttinn árið 2017. Karlamegin er það Bretinn Travis Ludlow sem var átján ára þegar hann kláraði hringflug sitt í síðasta mánuði.
„Það gleður mig að ég skuli minnka það, eða reyna að minnka það“.