Van Dijk er kominn aftur á gott ról eftir að hafa verið frá gott sem allt tímabilið í fyrra. Hann varð fyrir fyrir meiðslum í grannaslag Liverpool gegn Everton. Hann lék sinn fyrsta deildarleik á Anfield í tæpt ár er Liverpool vann 2-0 sigur á Burnley um helgina og bætti þar við framúrskarandi árangur sinn á Anfield.
Van Dijk hefur með leik helgarinnar spilað 48 heimaleiki fyrir Liverpool á Anfield í deildinni og ekki enn tapað leik. 43 leikjanna hafa unnist en fimm hafa farið jafntefli.
48 - Virgil van Dijk has now made 48 Premier League appearances for Liverpool at Anfield, losing none of those games (W43 D5); only Lee Sharpe played more home games for one club in the competition without losing any of them (59 with Manchester United). Charm. #LIVBUR pic.twitter.com/YwR6UHesV8
— OptaJoe (@OptaJoe) August 21, 2021
Aðeins einn leikmaður hefur spilað fleiri heimaleiki fyrir eitt og sama liðið án þess að tapa leik. Það afrekaði Lee Sharpe með Manchester United. Hann lék 59 heimaleiki fyrir Manchester United án þess að tapa frá því að enska úrvalsdeildin var stofnuð þar til hann yfirgaf liðið árið 1996. Sharpe tapaði vitaskuld heimaleikjum í deild með United en gerði hann í gömlu ensku 1. deildinni, fyrir stofnun úrvalsdeildarinnar.
Sharpe lék með Manchester United frá 1988 til 1996 en gekk eftir það erfiðlega að fóta sig. Hann spilaði aðeins 30 leiki á þremur árum hjá Leeds United í kjölfarið, lék með Bradford frá 1999 til 2002 og samdi svo við lið Grindavíkur í úrvalsdeild karla á Íslandi sumarið 2003 eftir misheppnaða dvöl hjá Exeter.

Sharpe entist ekki lengi hjá Grindavík, spilaði aðeins sjö deildarleiki, og tilkynnti að hann væri hættur knattspyrnuiðkun í júní 2003, aðeins 32 ára að aldri. Hann tók skóna stuttlega fram með Garforth United í utandeildinni ensku ári síðar þar sem hann lék sína síðustu fótboltaleiki.
Hann var valinn besti ungi leikmaðurinn á Englandi árið 1991 og vann þrjá Englandsmeistaratitla hjá Manchester United. Þá lék hann átta landsleiki fyrir England frá 1991 til 1993.